Ernie Els vonast eftir góðri helgi

Ernie Els mætir til leiks um helgina á BMW SA Open og sagðist í viðtali fyrir mótið vera spenntur fyrir helginni. Els hefur sigrað á mótinu fimm sinnum, fyrst árið 1992 og síðast árið 2010.

„Síðasta ár var áhugavert ár, dóttir mín fór í háskóla og ég var að glíma við smá meiðsli. Núna líður mér vel og mig langar að spila golf, sérstaklega fyrir framan heimafólkið mitt. Ég er einnig með nýjar kylfur sem ég er að vinna með. Vonandi get ég fundið eitthvað af gamla forminu og átt góða helgi.“

Els sagði einnig að það væri gaman að sjá alla ungu suður-afrísku kylfingana vera að koma upp og margir af þeim væru mjög nálægt því að gera frábæra hluti.

„Það eru ungir spilarar með um helgina sem eru svo nálægt því að verða frábærir kylfingar og það gæti verið mikill stökkpallur fyrir þá að vinna mótið.“