Ernie Els dregur sig úr KLM Open vegna fellibylsins Irmu

Suður-Afríski kylfingurinn Ernie Els hefur tilkynnt að hann muni ekki taka þátt í KLM Open mótinu eins og fyrirhugað var. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og fer fram í Hollandi um næstu helgi. Els sagði í tilkynningu að hann þyrfti að vera til staðar fyrir fjölskyldu og vini vegna fellibylsins Irmu sem skall á Flórída nú um helgina. 

Eins og greint var frá fyrir skömmu var Els heiðraður fyrir störf sína í þágu einhverfra á dögunum. Hann hefur ásamt konu sinni rekið góðgerðarsamtökin „Els for Autism“ síðan árið 2009, en vegna fellibylsins þurfti að loka skóla á vegum samtakanna sem staðsettur er í suður Flórída.

„Það mikilvægasta núna og næstu daga er að styðja við fjölskyldu mína og vini og starfsfólk „Els for Autism“. Við verðum að vera tilbúin til þess að takast á við afleiðingar þessa skelfilega storms“

Daan Slooter, skipuleggjandi KLM Open mótsins, segist skilja ákvörðun Els og vonast til þess að skaðinn sé ekki mikill og að allir séu öruggir.