Einungis fjórir undir pari á Opna bandaríska

Aðstæður voru gríðarlega krefjandi fyrir bestu kylfinga heims þegar Opna bandaríska mótið hófst í dag á Shinnecock Hills vellinum í New York fylki. Einungis fjórir kylfingar náðu að spila undir pari og sáust nokkur óvenju há skor yfir daginn.

Lægsta skor dagsins var -1 og eru það þeir Scott Piercy, Ian Poulter, Russell Henley og Dustin Johnson sem deila efsta sætinu. Johnson sigraði á þessu sama móti árið 2016 en hinir eiga enn eftir að sigra á risamóti.

Jason Dufner lék á pari vallarins á fyrsta hringnum og er í 5. sæti. Allir aðrir kylfingar léku á höggi yfir pari eða verra skori sem hefur ekki sést á mótaröðum þeirra bestu í langan tíma.

Justin Rose og Henrik Stenson eru á meðal efstu kylfinga. Þeir léku báðir á höggi yfir pari og eru jafnir í 6. sæti.

Af þeim kylfingum sem náðu sér ekki á strik ber helst að nefna Rory McIlroy (+10), Tiger Woods (+8), Jason Day (+9), Jordan Spieth (+8), Adam Scott (+8), Jon Rahm (+8) og Phil Mickelson (+7). Hreint út sagt ótrúlegar tölur.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is