Einkatími með Tiger seldist á rúmar 22 milljónir

Nú í haust var haldinn góðgerðar viðburður til styrktar fórnarlamba Harvey fellibylsins sem herjaði á Houston í Texas í ágúst síðastliðnum. Það var Chris Stroud sem stóð fyrir viðburðinum, en hann sigraði á Barracuda Championship mótinu nú í sumar. Viðburðurinn gekk vonum framar og safnaðist yfir ein milljón bandaríkjadala, eða meira en 100 milljónir króna.

Stærsti liðurinn sem boðið var upp á á þessum góðgerðarviðburði var einkatími með sjálfum Tiger Woods. Svo fór að tíminn seldist á 210 þúsund dollara, eða rúmlega 22 milljónir íslenskra króna. Sá sem nældi sér í þennan einkatíma hefur vafalaust lært eitthvað af einum besta kylfing sögunnar.

Aðrir sem tóku þátt í viðburðinum voru meðal annars Stacy Lewis, Patrick Reed og Steve Elkington. Þrátt fyrir að vel hafi tekist til og markmiði fjáröflunarinnar hafi verið náð er Stroud hvergi nærri hættur og hyggst halda fleiri viðburði á næstunni til styrktar þessu málefni.