Eimskipsmótaröðin: Sterkur keppendahópur á Egils Gull mótinu

Margir af bestu kylfingum landsins mæta til leiks á Egils Gull mótið sem fer fram dagana 18.-20. maí á Garðavelli á Akranesi en um er að ræða fyrsta mót ársins á Eimskipsmótaröðinni. Alls skráðu 70 karlar sig til leiks og 17 konur en hámarks keppendafjöldi í mótinu var 120.

Meðal þeirra sem skráðu sig til leiks eru atvinnukylfingarnir Valdís Þóra Jónsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Axel Bóasson og Ólafur Björn Loftsson. Þar að auki er Egill Ragnar Gunnarsson skráður til leiks og eru því allir Íslandsmeistarar síðasta árs meðal keppenda í móti helgarinnar.

Meðalforgjöf keppenda í mótinu er 2 og er Axel Bóasson með þá lægstu eða -3,5. Guðrún Brá og Valdís Þóra eru þar rétt á eftir með -3,1 og Aron Snær Júlíusson, GKG, er með -3 í forgjöf.

Alls eru 24 keppendur með 0 eða lægri forgjöf sem sýnir ágætlega hversu sterkt mót helgarinnar er.

Leiknir eru þrír 18 holu hringir í mótinu og komast 84 efstu kylfingarnir áfram að tveimur hringjum loknum, 63 í karlaflokki og 21 úr kvennaflokki.

Forgjafalægstu kylfingar Egils Gull mótsins:

Axel Bóasson, GK, -3,5
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, -3,1
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, -3,1
Aron Snær Júlíusson, GKG, -3,0
Björn Óskar Guðjónsson, GM, -2,0
Kristján Þór Einarsson, GM, -2,0
Ólafur Björn Loftsson, GKG, -1,8
Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, -1,7
Vikar Jónasson, GK, -1,5
Stefán Þór Bogason, GR, -1,4


Axel Bóasson varð Íslandsmeistari í höggleik árið 2017 í annað skiptið á ferlinum.


Guðrún Brá hefur jafnan leikið vel á Garðavelli en hún á vallarmetið á bláum teigum, 66 högg.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is