Eimskipsmótaröðin: Ragnhildur nálgast efstu kylfinga

Eftir glæsilegan sigur á Símamótinu um helgina á Eimskipsmótaröðinni er Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, komin upp í 6. sæti stigalistans í kvennaflokki.

Ragnhildur er nú með 1.152 stig í 6. sæti og nálgast efstu kylfinga en alls eru búin fjögur mót á þessu tímabili. Sigur Ragnhildar á Símamótinu kom eftir fugl á fyrstu holu í bráðabana gegn Helgu Kristínu Einarsdóttur sem er nú komin upp í 12. sæti á stigalistanum.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er sem fyrr í efsta sæti stigalistans en hún stóð uppi sem sigurvegari á fyrstu þremur mótum tímabilsins. Hún var hins vegar ekki með um helgina en hún lék þess í stað á LET Access mótaröðinni.

Saga Traustadóttir og Anna Sólveig Traustadóttir minnkuðu forystu Guðrúnar með á toppi listans með fínum árangri um helgina en Saga endaði í 4. sæti og Anna í því þriðja.

Staða efstu kylfinga á stigalistanum:

1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, 2850 stig
2. Saga Traustadóttir, GR, 2002 stig
3. Anna Sólveig Traustadóttir, GR, 1985 stig
4. Arna Rún Kristjánsdóttir, GM, 1590 stig
5. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, 1435,83 stig
6. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, 1152 stig

Hér er hægt að sjá stöðuna á stigalistanum í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is