Eimskipsmótaröðin: Kristján Þór í forystu á fimm höggum undir pari

Símamótið, annað mót ársins á Eimskipsmótaröðinni, fór af stað í dag á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Það er heimamaðurinn Kristján Þór Einarsson sem er í forystu í karlaflokki eftir fyrsta dag á fimm höggum undir pari.

Hringurinn hjá Kristjáni var einstaklega stöðugur. Hann lék fyrri níu holurnar á tveimur höggum undir pari með því að fá tvo fugla á holum tvö og fimm. Á síðari níu holunum fékk hann fugl á 12. og fylgdi því svo eftir með erni á 13. holunni. Hann var um tíma kominn á sex högg undir par eftir fugl á 16. holu en tapaði svo einu höggi á 17. og þar við sat, 67 högg staðreynd.


Kristján Þór Einarsson.

Fimm kylfingar eru jafnir í öðru sæti á þremur höggum undir pari. Það eru þeir Egill Ragnar Gunnarson, Birgir Björn Magnússon, Ingvar Andri Magnússon, Benedikt Sveinsson og Dagbjartur Sigurbrandsson.

Skor voru almennt góð í dag en 13 kylfingar voru á parinu eða betur.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu manna:

1. Kristján Þór Einarsson, GM, 67 högg (-5)
2.-6. Egill Ragnar Gunnarsson, GKG, 69 högg (-3)
2.-6. Birgir Björn Magnússon, GK, 69 högg (-3)
2.-6. Ingvar Andri Magnússon, GKG, 69 högg (-3)
2.-6. Benedikt Sveinsson, GK, 69 högg (-3)
2.-6. Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, 69 högg (-3)
7. Hlynur Bergsson, GKG, 70 högg (-2)
8.-10. Henning Darri Þórðarson, GK, 71 högg (-1)
8.-10. Ragnar Már Ríkarðsson, GM, 71 högg (-1)
8.-10. Sverrir Haraldsson, GM, 71 högg (-1)