Eimskipsmótaröðin: Birgir sigraði eftir frábærar síðari níu holur

Annað mót ársins á Eimskipsmótaröðinni, Símamótið, kláraðist nú fyrir skömmu. Það var Keilismaðurinn Birgir Björn Magnússon sem stóð uppi sem sigurvegari í karlaflokki og má segja að hann hafi lagt grunninn að sigri sínum með ótrúlegum síðari níu holum.

Þegar sjö holur voru eftir var Kristján Þór Einarsson í forystu á átta höggum undir pari og Birgir Björn á sex höggum undir pari. Þá fékk Birgir tvo erni og þrjá fugla og var kominn með fimm högga forystu.

Þá forystu lét hann ekki af hendi og endaði hann hringinn á 66 höggum, þar sem að hann lék síðari níu holurnar á 29 höggum. Mótið endaði hann á 13 höggum undir pari, fjórum höggum á undan Kristjáni Þór.

Í þriðja sæti varð Sigurður Bjarki Blumenstein. Hann lék vel í dag og kom í hús á 68 höggum og endaði mótið á fimm höggum undir pari.

Til gamans má geta að Birgir Björn hefur byrjað þetta sumar hreint út sagt ótrúlega. Ásamt því að sigra í dag hefur hann unnið fyrstu tvö mót ársins á Íslandsbankamótaröðinni í flokki 19-21. árs.

Hérna má sjá lokastöðuna.