Dustin Johnson vill bíða og sjá með Tiger Woods

Dustin Johnson segir fólki að bíða og sjá hvernig Tiger Woods verður þegar hann snýr aftur um næstu helgi, frekar en að vera að spá of mikið í hlutunum.

Johnson hefur leik á morgun á Abu Dhabi Golf Championship mótinu, en þetta er annað árið í röð sem hann er á meðal þátttakenda. Hann á góðar minningar frá mótinu því að í fyrra endaði hann í öðru sæti. Í viðtali fyrir mótið var Johnson ekki tilbúinn að fara út þá umræðu hvernig Woods á eftir að ganga þegar hann snýr aftur.

„Það er erfitt að segja eitthvað fyrr en hann mætir aftur. Ég vil ekki vera með neinar vangaveltur um það hvernig einhverjum mun ganga. Ég er búinn að spila með honum nokkrum sinnum og hann er að sveifla kylfunni vel og virðist vera í góðu líkamlegu ástandi. Það er frábært fyrir íþróttina að hann komi aftur. Áhuginn verður meiri og það eru fleiri áhorfendur sem mæta á svæðið.“

Johnson sagðist einnig vera mjög spenntur fyrir helginni og vonast til að færast upp um eitt sæti frá því í fyrra.

„Völlurinn hentar mér vel. Í fyrra var í fyrsta skipti sem ég spilaði völlinn, en núna er ég búinn að spila fjóra keppnishringi. Í ár þekki ég völlinn aðeins betur og vonandi hjálpar það. Vonandi get ég spilað jafn vel og á Havaí.“