Dustin Johnson vann með miklum yfirburðum

Sentry Tournament of Champions mótinu lauk í nótt og var það Dustin Johnson sem stóð uppi sem sigurvegari og sigraði hann með miklum yfirburðum. Þetta var fyrsta mót ársins og endaði Johnson átta höggum á undan næsta manni.

Johnson lék frábært golf í gær, en hann kom í hús á 65 höggum, eða átta höggum undir pari. Á lokahringnum fékk hann einn örn, sjö fugla, einn skolla og restina pör. Örninn kom á 12. holunni, sem er par 4 hola. Þar gerði hann sér lítið fyrir og sló upphafshöggið um 15 sentimetra frá holunni. Þetta var annar örninn hans á 12. holunni í mótinu.

Johnson lék síðustu tvo hringina á samtals 15 höggum undir pari. Mótið endaði hann á 24 höggum undir pari.

Jon Rahm endaði einn í öðru sæti á 16 höggum undir pari. Hann lék lokahringinn á 69 höggum, eða fjórum höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.


Jon Rahm endaði einn í öðru sæti.