Dustin Johnson þriðji kylfingurinn til að vinna 17 mót fyrir 34 ára

Eins og greint var frá fyrr í morgun stóð Dustin Johnson uppi sem sigurvegari á fyrsta móti ársins á PGA mótaröðinni þegar hann bar sigur úr býtum á Sentry Tournament of Champions. Með sigri sínum styrkti hann stöðu sína á toppi heimslistans.

Þetta var hans 17 sigur á PGA mótaröðinni og með þessum sigri varð hann aðeins þriðji kylfingurinn síðustu 30 árin til þess að ná að vinna 17 mót fyrir 34 ára aldur. Hinir tveir kylfingarnir eru Tiger Woods og Phil Mickelson.

Eftir mótið sagði Johnson að hann hefði verið mjög einbeittur á lokadeginum og ætlaði ekki að tapa niður forystu sinni eins og hann gerði í Kína á síðasta ári.

„Ég var með sex högga forystu á WGC mótinu í Sjanghæ fyrir lokadaginn og hann var bara mjög erfiður. Ég var að pútta illa og satt best að segja gerði ég ekkert vel, enda tapaði ég. Þannig ég var mjög einbeittur í dag þar sem ég var með tveggja högga forystu og ég endaði að vinna með átta höggum.“