Dustin Johnson lék á 7 höggum undir pari í gær en faðir hans bætti um betur

Dustin Jonhnson, efsti kylfingur heimslistans, leikur um þessar mundir á AT&T Pebble Beach Pro Am mótinu á PGA mótaröðinni og er eftir tvo hringi í forystu. Hann lék hringinn í gær á 64 höggum, eða 7 höggum undir pari, sem er hans lang besti árangur á Monteray Peninsula vellinum.

Þetta var þó ekki eina íþróttaafrekið í fjölskyldu Dustin þann daginn en faðir hans átti fullkominn leik í keilu þegar hann fékk 300 stig í einum leik. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem faðir Dustin nær að spila fullkominn leik í keilu, heldur hefur honum tekist það 6 eða 7 sinnum áður að sögn Dustin.

Dustin sjálfur er ekki svo slæmur í keilu, þótt honum hafi ekki tekist að spila fullkominn leik, en hans besta skor er 292 stig. 

Á þessum tíma fyrir ári var Dustin að komast í sitt besta form á vellinum, en hann sigraði á þremur mótum í röð; Genesis Open, WGC-Mexico Championship og WGC-Dell Match Play Championship.

Hann var spurður að því hvort formið hans væri að komast aftur á það stig.

„Leikurinn hjá mér er alveg að komast á það stig. Ég veit ekki hvort hann er alveg eins góður og á þessum sigur kafla. Það var sennilega besta golf sem ég hef leikið á ferlinum, en hlutar leiksins eru jafn góðir og þá.“