Dustin Johnson í forystu fyrir lokahringinn

Efsti maður heimslistans, Dustin Johnson, leiðir fyrir lokahringinn á Sentry Tournament of Champions, móti helgarinnar á PGA mótaröðinni. Johnson lék þriðja hringinn á sjö höggum undir pari og er samtals á 16 höggum undir pari í mótinu.

Johnson hafði fremur hægt um sig framan af hring en eftir 11 holur var hann á 2 höggum undir pari. Þá fóru hlutirnir heldur betur að gerast því á 12. holu fékk Johnson örn eftir að hafa sett um 65 metra langt högg beint í holu. Hann lék svo síðustu sjö holur hringsins á 5 höggum undir pari og kláraði hringinn á 66 höggum.

Brian Harman er í öðru sæti á 14 höggum undir pari, tveimur höggum á eftir Johnson og tveimur höggum á undan Jon Rahm sem er þriðji.

Bandaríkjamennirnir Rickie Fowler og Jason Dufner deila fjórða sætinu á 11 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is