Dustin Johnson fékk fyrsta víti ársins eftir að hafa slegið rangan bolta

Það er ekki mikið búið af árinu og er Dustin Johnson nú þegar búinn að fá dæmd á sig tvö vítishögg fyrir það að hafa slegið rangan bolta á öðrum hring á fyrsta móti ársins 2019.

Á fjórðu holu á öðrum hring Sentry Tournament of Champions sló Johnson í torfæru. Þar fékk hann upplýsingar frá starfsmanna mótsins hvar boltinn væri  og sló Johnson boltann. Boltinn hjá Johnson var aftur á móti um 10 metrum lengra inn í torfærunni og var því um rangan bolta að ræða. Johnson áttaði sig ekki á mistökunum fyrr en eftir að hafa slegið rangan bolta.

Það þýddi að hann fékk tvö högg í víti og endaði hann á að fá tvöfaldan skolla á holuna. Hringinn lék hann á 74 höggum eða einu höggi yfir pari og er hann jafn í 12. sæti á fimm höggum undir pari.