Dustin Johnson: Allt á réttri leið

Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson sýndi allar sínar bestu hliðar á Sentry Tournament of Champions mótinu sem fór fram um helgina á PGA mótaröðinni. Johnson sigraði á mótinu með átta högga mun og er líklegur til afreka á næstu vikum.

„Ég hafði verið að spila vel og mér líður vel á þessum golfvelli,“ sagði Johnson eftir sigurinn. „Þá hef ég verið að slá sérstaklega vel af teig eftir að ég setti nýja Taylormade dræverinn í settið.

Mig langaði ekki að lenda í því sama og í Kína á HSBC mótinu [Johnson kastaði þá frá sér nokkurra högga forystu á lokahringnum]. Jafnvel þegar ég var kominn á 20 högg undir par og með fína forystu setti ég mér einfaldlega markmið að komast 25 högg undir par.

Þessi byrjun lofar góðu en ég þarf að halda áfram að æfa vel. Mér líður eins og ég eigi mikið inni en það er allt á réttri leið.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is