Day svekktur með athæfi Mickelson

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum kylfingum að Opna bandaríska meistaramótinu lauk nú á sunnudaginn með sigri Brooks Koepka. En það er ákveðið atvik sem stendur upp úr á þessu öðru risamóti ársins sem varðaði Phil Mickelson. Lesa má nánar um atvikið hér.

Athæfi Mickelson kostaði hann tvö högg á laugardeginum og lék hann 13. holu vallarins á 10 höggum. Skiptar skoðanir hafa verið á því hvort að þessi tvö vítishögg hafi verið of væg refsing. Einn þeirra sem hefur tjáð sig um atvikið er Jason Day og segist hann vera svekktur með það sem gerðist.

„Það var auðvitað svekkjandi að sjá hvað Phil gerði. Fólk er með skiptar skoðanir á því hvað hann gerði. Málið er að hann græddi voðalega lítið á því sem hann gerði þar sem hann endaði á að fá 10 á holuna. Fyrir mína parta þá finnst mér að niðurstaðan hefði átt að vera önnur en tvö högg í víti.“

„Svona er þetta samt. Þetta er samt leiðinlegt atvik þar sem það setur svartan blett á mótið og tekur athyglina frá sigurvegara mótsins.“