Darren Clarke segir Jon Rahm geta orðið Ryder stjörnu

Jon Rahm hefur átt frábært ár, en hann vann meðal annars sitt fysta PGA mót, endaði í þriðja sæti í Race to Dubai keppninni og er kominn upp í fjórða sæti heimslistans. Hann á þó eftir að spila í Ryder Bikarnum, en fastlega má gera ráð fyrir að hann keppi fyrir hönd Evrópu á næsta ári í Frakklandi.

Darren Clarke, sem var fyrirliði evrópska liðsins í fyrra þegar Bandaríkjamenn sigruðu, sagði í viðtali á dögunum að Rahm væri einn af nýliðum evrópska liðsins sem gæti gert gæfumuninn.

„Jon Rahm er búinn að vera frábær í ár. Það sem hann hefur afrekað síðan hann gerðist atvinnumaður er ótrúlegt, þar á meðal að vera kominn í fjórða sæti heimslistans. Hann, ásamt Tyrrell Hatton og Tommy Fleetwood eru nýliðar sem geta gert gæfumuninn. Það má samt ekki gleyma því að bandaríska liðið verður mjög gott. “