Daníel Ísak endaði jafn í fjórða sæti í Þýskalandi

Tveir íslenskir kylfingar luku í dag leik á German Junior Golf mótinu sem fram fór í Lubeck í Þýskalandi. Kylfingarnir voru þeir Daníel Ísak Steinarsson úr GK og Kristófer Karl Karlsson úr GM. Daníel Ísak endaði mótið jafn í fjórða sæti á samtals þremur höggum yfir pari á meðan Kristófer endaði jafn í 15. sæti.

Daníel Ísak lék lokahringinn á 73 höggum, eða pari vallar og endaði hann því mótið á þremur höggum yfir pari. Hann átti erfitt uppdráttar á fyrsta hring mótsins, en hann lék hann á 80 höggum (+7). Á öðrum degi átti Daníel einn besta hring mótsins þegar að hann kom í hús á 68 höggum, eða fimm höggum undir pari. Þriðja hringinn lék hann á 74 höggum (+1) og síðasta á 73, eins og áður sagði. 

Daníel endaði því mótið jafn í fjórða sæti, sjö höggum á eftir efstu mönnum, en efstu þrír strákarnir voru jafnir á fjórum höggum undir pari.

Kristófer lék lokahringinn á 79 höggum, eða sex höggum yfir pari. Mótið endaði hann á samtals 19 höggum yfir pari (83, 76, 73, 79) og var hann jafn í 15. sæti.

Nánari úrslit úr mótinu má sjá hérna.

Kylfingur.is óskar þeim báðum til hamingju með flottan árangur.


Kristófer Karl Karlsson, GM, endaði jafn í 15. sæti.