Daly mun leika í golfbíl á PGA meistaramótinu

Annað risamót ársins, PGA meistaramótið, hefst eftir rúmlega viku. Flestir af bestu kylfingum heims mæta þá til leiks á Bethpage Black völlinn en mótið hefur aldrei verið leikið á þessum velli.

Einn þeirra kylfinga sem verður á meðal keppenda er John Daly. Þrátt fyrir að vera ekki lengur einn af bestu kylfingum heims þá er hann enn einn af skrautlegri kylfingum heims. Nú er komið á hreint að Daly mun fá að leika í golfbíl í mótinu í næstu viku og verður það í fyrsta skipti sem það gerist í risamóti síðan Casey Martin gerði það árið 1998 á Opna bandaríska meistaramótinu.

Daly sem er orðinn 53 ára gamall sótti um undanþágu vegna gigtar í hægra hnénu. Að hans sögn veldur það því að hann geti ekki labbað heilan golfhring. Hann hefur undanfarin ár leikið á PGA Tour Champions, sem er öldungamótaröðin í Bandaríkjunum, en á henni mega kylfingar leika á golfbílum.

Rúnar Arnórsson
runar@vf.is