Charlie Hoffman í góðum málum fyrir lokahringinn

Það er Bandaríkjamaðurinn Charlie Hoffman sem er í forystu fyrir lokahringinn á Hero World Challenge mótinu. Hoffman var aðeins einn af fimm kylfingum þriðja hrings til þess að leika undir pari og fer hann með fimm högga forystu inn í lokahringinn.

Hoffman fékk sex fugla á hringnum, tvo skolla og einn tvöfaldan skolla. Þrír af fuglum dagsins komu á síðustu fimm holunum. Hann lék þriðja hringinn á 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari og var það besti hringur dagsins.

Fimm höggum á eftir Hoffman eru þeir Justin Rose og Jordan Spieth. Rose lék á 71 höggi, eða einu höggi undir pari, á meðan Spieth lék á 72 höggum.

Tiger Woods náði sér alls ekki á strik fyrri hluta hringsins. Hann var kominn fimm högg yfir par eftir 10 holur, en náði þó að klóra aðeins í bakkann og kom í hús á 75 höggum, eða þremur höggum yfir pari. Fyrir lokahringinn er Woods á samtals fjórum höggum undir pari og er jafn í 10. sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.