Charl Schwartzel vill bæta upp fyrir hrakfarirnar síðan 2015

BMW SA Open mótið hefst á fimmtudaginn og er þetta fyrsta mótið á Evrópumótaröðinni á árinu 2018. Margir sterkir kylfingar eru mættir til leiks þar á meðal heimamaðurinn Charl Schwartzel. 

Schwartzel, sem hefur sigrað á 11 mótum á Evrópumótaröðinni á sínum ferli, þar af eitt risamót, hefur aldrei tekist að sigra á þessu móti, en hann hefur þó verið nálægt. Árið 2015 tapaði Schwartzel fyrir Andy Sullivan í bráðabana. Schwartzel sagði fyrir mótið að hann væri mjög spenntur að mæta aftur til leiks og segist vonast til þess að bæta upp fyrir 2015.

„Það er frábært að vera kominn aftur. Ég hef ekki komið hingað í nokkur ár. Í gær var í fyrsta skipti sem ég spilaði völlinn eftir að tapa á móti Andy Sullivan, þennan hræðilega sunnudag. Það komu nokkrar slæmar minningar í dag, en það var gott að komast út á völlinn og spila í Pro-Am mótinu og komst yfir þær minningar. Ég kastaði þessum sigri frá mér í lokin. Þetta er klárlega mót sem ég væri til í að vinna einhvern daginn.“