Cabrera feðgar fóru best af stað á PNC Challenge

Tvöfaldi risameistarinn Angel Cabrera og sonur hans Angel Cabrera Jr. léku best allra á fyrsta hring PNC feðgakeppninnar sem fór af stað í dag í Flórída.

Cabrera feðgarnir léku á 59 höggum og eru með högg í forskot á næstu menn. Næstir á eftir þeim koma Mark og Shaun O'Meara sem eru að leika í mótinu 10. árið í röð.

Fjölmargir frábærir kylfingar eru meðal keppenda að þessu sinni í PNC feðgakeppninni en þetta er árlegt styrktarmót.

David Duval og tengdasonur hans Nick Karavites eiga titil að verja í mótinu en þeir léku fyrsta hringinn á 61 höggi líkt og Bernhard Langer og sonur hans, Jason.

Alls eru leiknir tveir hringir í mótinu sem lýkur á morgun, sunnudag.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is