Bubba Watson vann sitt 10. PGA mót

Bubba Watson var rétt í þessu að sigra á sínu 10. PGA móti á ferlinum, þegar að hann stóð uppi sem sigurvegari á Genesis Open mótinu. Þetta var þriðji sigur hans á þessu móti, en síðasti sigur Watson á PGA mótaröðinni kom á þessu móti árið 2016.

Fyrir daginn var Watson með eins höggs forystu á Patrick Cantlay. Eftir níu holur voru þeir orðnir jafnir á 10 höggum undir pari. Þá skipti Watson algjörlega um gír og fékk þrjá fugla á næstu átta holum, þar á meðal á 14. holunni þegar að hann sló ofan í úr glompu. Á meðan fékk Cantlay tvo skolla og einn fugl.

Watson endaði hringinn á 69 höggum, eða tveimur höggum undir pari og endaði mótið á samtals 12 höggum undir pari.

Jafnir í öðru sæti urðu þeir Tony Finau og Kevin Na á 10 höggum undir pari. Cantlay endaði síðan jafn í fjórða sæti ásamt Scott Stallings á níu höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.