Brooks Koepka sigraði á Opna bandaríska eftir frábæran lokahring

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka stóð uppi sem sigurvegari á Opna bandaríska risamótinu sem lauk í kvöld á Erin Hills golfvellinum í Wisconsin. Koepka lék hringina fjóra samtals á 16 höggum undir pari og endaði að lokum fjórum höggum á undan næsta manni. Skor hans var jafnframt jöfnun á mótsmeti sem Rory McIlroy setti árið 2011.

Koepka hóf lokadaginn tveimur höggum á eftir Brian Harman en var fljótlega búinn að koma sér í forystu með tveimur fuglum á fyrstu holunum. Hann átti svo eftir að bæta við sig fugli á 8. holu áður en hann fékk skolla á 10. holu.

Þegar komið var á 14. holu var Koepka enn í forystu á 13 höggum undir pari. Þá setti hann einfaldlega í fluggír og fékk þrjá fugla á síðustu fimm holunum. Þar með lék hann lokahringinn á 5 höggum undir pari.

Brian Harman, sem hóf daginn í forystu, lék lokahringinn á pari vallarins og endaði jafn Hideki Matsuyama í öðru sæti á 12 höggum undir pari í heildina. Matsuyama lék glæsilegt golf á lokahringnum og kom inn á sex höggum undir pari. Tommy Fleetwood endaði í fjórða sæti á 11 höggum undir pari.

Justin Thomas, sem lék á 62 höggum á þriðja degi, náði ekki að fylgja eftir mögnuðum hring og lék á þremur höggum yfir pari á lokahringnum.

Sigur Koepka á Opna bandaríska var einungis hans þriðji á stóru mótaröðunum. Áður hafði hann sigrað á Waste Management mótinu (2015) á PGA mótaröðinni og Turkish Airlines mótinu (2014) á Evrópumótaröðinni.

Staða efstu manna á Opna bandaríska risamótinu:

1. Brooks Koepka, -16
T-2. Brian Harman, -12
T-2. Hideki Matsuyama, -12
4. Tommy Fleetwood, -11

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.


Hideki Matsuyama endaði jafn í öðru sæti eftir frábæran lokahring.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is