Björn: Lið Asíu er gríðarlega sterkt

Fyrsta umferð EurAsia bikarsins fór fram í dag og er staðan þannig að lið Evrópu er með 2,5 stig og lið Asíu er með 3,5 stig. Leikinn var fjórbolti, en þá spila allir leikmenn sínum bolta og telur alltaf betra skorið á hverri holu.

Fyrirliði Evrópu, Thomas Björn, var nokkuð ánægður með spilamennsku sinna manna en hann tók það fram að lið Asíu er alls ekki mikið verra en það evrópska.

„Ég er búinn að tala við strákana alla vikuna um að byrja mótið af krafti. Þegar ég horfi á spilamennsku þeirra eru líklega einhverjir sem vilja gera betur en heilt yfir léku þeir nokkuð gott golf.

Við höfum talað um það í mörg ár að í Asíu hafa verið kannski tveir, þrír, fjórir heimsklassa kylfingar en í dag eru það að minnsta kosti 20 kylfingar. Það eru fjölmargir kylfingar orðnir góðir og þess vegna eru þeir með gríðarlega sterkt 12 manna lið.“

Á laugardaginn verður leikinn fjórmenningur og eru liðin klár.

Tommy FLEETWOOD og Henrik STENSON gegn
S.S.P. CHAWRASIA og Anirban LAHIRI

Paul CASEY og Tyrrell HATTON gegn
Kiradech APHIBARNRAT og Byeong Hun AN

Rafa CABRERA BELLO og Alexander LEVY gegn
Gavin GREEN og Yuta IKEDA

Matthew FITZPATRICK og Thomas PIETERS gegn
Poom SAKSANSIN og Sunghoon KANG

Paul DUNNE og Alex NOREN gegn
Phachara KHONGWATMAI og Hideto TANIHARA

Ross FISHER og Bernd WIESBERGER gegn
Haotong LI og Nicholas FUNG

Ísak Jasonarson
isak@vf.is