Bjørn leið illa eftir nokkur símtöl varðandi Ryder valið

Eins og greint var frá fyrr í dag er evrópska liðið klárt fyrir Ryder bikarinn sem hefst eftir fjórar vikur. Síðustu fjórir leikmenn liðsins voru valdir í dag af Thomas Bjørn, fyrirliða evrópska liðsins. Kylfingarnir sem voru valdir voru þeir Ian Poulter, Paul Casey, Henrik Stenson og að lokum Sergio Garcia.

Í viðtali eftir valið í dag sagði hann að hann hefði hringt bæði í leikmennina sem voru valdir og þá sem komust ekki í liðið.

„Ég hringdi 10 símtöl í gær: Ég hringdi í fjóra leikmennina sem voru valdir og síðan hringdi ég í sex aðra leikmenn til að segja þeim að þeir væru ekki hluti af liðinu að þessu sinni.“

Það eru eflaust margir hissa á því að Garcia hafi verið valinn ef tekið er mið af gengi hans undanfarnar vikur og það er greinilegt að Bjørn vissi að hugsanlega yrði valið gagnrýnt. Einn þeirra sem komst ekki í liðið og hann hringdi í var Rafa Cabrera Bello.

„Rafa átti erfitt með að taka þessu og hann var mjög svekktur. Það var mjög erfitt fyrir mig. Þegar ég var að fara hringja í hann varð mér hálf flökurt að þurfa gera þetta.“

„Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvernig honum líður. Þetta er það erfiða við að vera fyrirliði og ég öfunda ekki neinn að þurfa gera þetta.“