Birgir Leifur úr leik þrátt fyrir fína spilamennsku

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, féll í dag úr leik í lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina sem fram fer á Lumine svæðinu á Spáni.

Birgir Leifur lék fjórða hring mótsins á höggi undir pari og er samtals á 4 höggum undir pari í mótinu. Alls komast um 70 efstu kylfingarnir áfram eftir fjóra hringi í mótinu og er Birgir Leifur þessa stundina tveimur höggum frá öruggu sæti.

Ljóst er að niðurstaðan er svekkjandi fyrir Birgi sem lék fínt golf í mótinu en slæmur þriðji dagur gerði honum erfitt fyrir. Þá er skor keppenda í mótinu mjög gott.

Leiknir eru 6 hringir í mótinu sem lýkur á fimmtudaginn. Að því loknu kemur í ljós hvaða 25 kylfingar tryggja sér fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Hér er hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is