Birgir Leifur úr leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson hefur lokið leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina sem fer fram á Lumine golfsvæðinu á Spáni. Birgir Leifur komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir fjóra hringi sem miðaðist við efstu 70 kylfingana.

Birgir Leifur lék fjórða hringinn á pari vallarins en hann lék á Hills vellinum í dag. Birgir virðist hafa fundið sig betur á Hills vellinum í mótinu en hann lék báða hringina á þeim velli á parinu en lék hina tvo hringina á Lakes vellinum á fimm höggum yfir pari. 


Skorkort Birgis Leifs.

Til þess að komast í gegnum niðurskurðinn hefði Birgir þurft að leika á að minnsta kosti tveimur höggum undir pari en því miður er hann úr leik að þessu sinni. 70 efstu kylfingarnir leika svo um 25 laus sæti á Evrópumótaröðinni næstu tvo daga.

Þrátt fyrir að Birgir Leifur sé úr leik mun hann að öllum líkindum fá keppnisrétt á nokkrum mótum á Evrópumótaröðinni á næsta ári eftir flott tímabil á Áskorendamótaröðinni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is