Birgir Leifur sigraði í fyrsta sinn á Áskorendamótaröð Evrópu - viðtal

- Hef aldrei leikið betra golf - sagði Birgir Leifur

„Þetta er minn dagur í frábærri viku. Þessi titill er sérstakur fyrir mig og Ísland þar sem þetta er fyrsti sigurinn á Áskorendamótaröðinni hjá Íslendingi,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson í morgun eftir að hafa tekið við glæsilegum verðlaunagrip fyrir sigurinn á Golf Blue Green de Pléneauf Val Andre mótinu í Frakklandi. Veðurguðirnir tóku völdin í Frakklandi og fjórði hringurinn í mótinu var flautaður af. Birgir Leifur lauk leik á 18 undir pari sem er frábært skor.

Birgir Leifur hefur leikið frábærlega síðustu þrjá daga, sitt besta golf á ferlinum þar sem nánast allt gekk upp. Hann var með 7 högga forskot fyrir fjórða og lokahringinn í morgun. Það var því hans í raun að tapa mótinu en það kom ekki til. Veðurguðirnir voru með Íslendingum í Frakklandi.

Birgir Leifur var auðvitað í skýjunum í morgun í viðtali við heimasíðu mótaraðarinnar. „Ég hef verið atvinnumaður í langan tíma og oft hef ég verið í vandræðum á þriðja degi móts eftir að hafa leikið vel fyrstu tvo. Þetta er gríðarlega mikilvægt og sætt fyrir mig að geta lyft verðlaunagrip fyrir sigur eftir tuttugu ára baráttu í atvinnumennsku. Dagurinn í gær (3. dagurinn) var mjög stór. Ég var taugaóstyrkur í byrjun og byrjaði aðeins of varnarlega en svo datt ég í góðan gír og þetta rúllaði flott. Það er auðvitað sérstakt að síðasti dagurinn sé flautaður af en ég var klár í slaginn og ég hef aldrei leikið betur á ferlinum en síðustu þrjá daga.
Þessi sigur mun breyta öllu fyrir mig. Hann er ótrúlega sætur. Ég er ekki yngstur á mótaröðinni en þetta hefur gengið á ýmsu hjá mér og meiðsli oft spilað inn í. En ég hef verið þolinmóður og ekki gefist upp.
Nú get ég skipulagt mitt keppnishald, kemst inn í stærri mót sem eru væntanleg sem er mikilvægt og þá geta hlutir farið að gerast. Það skiptir öllu að vera meðal 15 efstu í lok keppnistíðar. Nú á ég möguleika á því,“ sagði Birgir sem er kominn í 16. sæti á peningalista Áskorendamótaraðarinnar.

Fyrir sigurinn fékk Birgir Leifur 33.600 Evrur eða 4,3 milljónir kr. Alls hefur Birgir Leifur fengið um 6,4 milljónir kr. í verðlaunafé á þessu tímabili á alls 11 mótum.

192 B Hafthorsson (Isl) 63 65 64,
199 A Pavan (Ita) 67 66 66, M Ford (Eng) 67 66 66,
200 O Lindell (Fin) 67 68 65,
201 M Schneider (Ger) 66 68 67, M Tullo (Chi) 64 69 68,
202 J Hansen (Den) 66 69 67,
203 M Lampert (Ger) 69 67 67, N Geyger (Chi) 63 73 67, A Saddier (Fra) 67 67 69,
204 M Ovesen (Den) 68 70 66, C Brazillier (Fra) 70 66 68, C Blomstrand (Swe) 69 63 72, N Von Dellingshausen (Ger) 66 70 68,
205 M Søgaard (Den) 67 68 70, M Schwab (Aut) 68 69 68, T Linard (Fra) 69 69 67,
206 V Perez (Fra) 68 70 68, S Brown (Eng) 68 69 69, R Kellett (Sco) 69 64 73.