Birgir Leifur sáttur með járnaspilið en þarf að skerpa á púttunum fyrir lokastigið

Birgir Leifur Hafþórsson verður meðal keppenda á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla sem fer fram dagana 10.-15. nóvember á Lumine svæðinu á Spáni.

Birgir Leifur endaði í 6. sæti á 2. stigs úrtökumóti í Madríd þar sem hann lék samtals á 13 höggum undir pari og gerði fá mistök. Í viðtali við blaðamann Kylfings sagði Birgir að lykillinn hefði verið járnaspilið og leikskipulagið.

„Ég myndi segja leikskipulagið og járnaspilið hafi verið best í mínum leik þar sem ég hitti mikið af flötum og var oft nálægt holu. Flatirnar voru með mjög mikið landslag þannig það var mikilvægt að vera með lengdarstjórnun upp á 10. Það skóp þennan árangur,“ sagði Birgir Leifur og hélt áfram. „Annars var allt frekar solid. Ég þarf aðeins að skerpa á púttunum og teighöggunum fyrir lokastigið.“

Síðustu 6 holur mótsins voru erfiðar hjá Birgi en hann fékk þrjá skolla á þeim kafla. Vissi hann hver staðan var í mótinu á þeim tímapunkti?

„Nei það fór að bæta mikið í vind á síðustu holunum og það gekk ekki alveg upp að hitta á réttan stað á flötunum. Svo var búin að fara mikil orka í að spila mig í gegn þannig ég spilaði kannski of varkárlega í lokin sem getur komið í bakið á manni.“

Líkt og áður hefur komið fram fer mótið fram dagana 10.-15. nóvember. Þangað til mun Birgir hlaða batteríin og skerpa á því helsta sem skiptir máli.

„Ég var að ferðast 500 kílómetra í dag [þriðjudag] þannig á morgun [miðvikudag] verður ræktaræfing, létt æfing og 9 holur. Á fimmtudaginn tek ég svo 18 holur og æfingu og á föstudaginn 9 holur.“

Að lokaúrtökumótinu loknu fá 25 efstu kylfingarnir fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni tímabilið 2018-2019. Í ár var Birgir með takmarkaðan þátttökurétt.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is