Birgir Leifur lauk leik jafn í 62. sæti

Birgir Leifur Hafþórsson lauk í nótt leik á ástralska PGA meistaramótinu. Hann lék lokahringinn á 72 höggum og endaði mótið jafn í 62. sæti. Fyrir árangurinn fékk Birgir Leifur rúmlega 2000 evrur, eða 274.000 krónur.

Birgir hóf leik á 10. braut og byrjaði með miklum látum. Þrír fuglar og einn skolli á fyrstu fjórum holunum. Skollar á holum 14 og 18 gerði það að verkum að hann lék fyrri níu holurnar á parinu.

Á síðari níu holunum var Birgir kominn tvö högg undir par eftir fugla á holum tvö og sex. Hann fékk aftur á móti skolla á bæði sjöundu og níundu holu og lauk því leik á 72 höggum, eða pari vallar. Mótið endaði Birgir Leifur á þremur höggum yfir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.