Birgir Leifur komst inn á mót vikunnar á Evrópumótaröðinni

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson verður meðal keppenda á BMW International Open mótinu sem fer fram í Þýskalandi dagana 21.-24. júní.

Birgir Leifur, sem er með takmarkaðan þáttökurétt á þessari sterkustu mótaröð Evrópu, verður því með köppum á borð við Tommy Fleetwood, Martin Kaymer og Sergio Garcia í mótinu sem allir eru skráðir til leiks.

Birgir hefur nú þegar leikið á 5 mótum á Evrópumótaröð karla á tímabilinu en hans besti árangur kom á því fyrsta sem fór fram í Ástralíu í desember. Þar endaði hann í 62. sæti eftir að hafa leikið á 3 höggum yfir pari.

Leiknir verða fjórir hringir í móti helgarinnar í Þýskalandi og hefur Argentínumaðurinn Anders Romero titil að verja. Henrik Stenson sigraði á þessu móti árið áður en það var í annað skiptið sem Stenson sigrar á þessu móti.

Hér verður hægt að fylgjast með okkar manni í beinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is