Birgir Leifur komst í gegnum niðurskurðinn í Frakklandi

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, komst í dag í gegnum niðurskurðinn á Hauts de France Open mótinu sem fer fram á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur hefur leikið fyrstu tvo hringina á höggi yfir pari í heildina og er í 40. sæti þegar nokkrir kylfingar eiga eftir að ljúka leik á öðrum hringnum.

Birgir Leifur hóf leik á 1. teig í morgun og fékk fyrstu fugla dagsins á 8. og 9. holu. Hann lék fyrri níu holurnar á höggi undir pari og var þá á parinu í mótinu. Á seinni níu fékk hann tvo skolla á móti einum fugli og kláraði hringinn á pari og samtals á höggi yfir pari eftir hringina tvo.

Þegar fréttin er skrifuð er Birgir Leifur í 41. sæti en niðurskurðurinn mun að öllum líkindum miðast við kylfinga á tveimur höggum yfir pari og betra.

Christopher Mivis og Thomas Linard eru í forystu eftir tvo hringi á 6 höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is