Birgir Leifur íþróttakarl ársins í Kópavogi

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson og knattspyrnukonan Fanndís Friðriksdóttir voru í kvöld kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2017.

Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Íþróttamiðstöðinni Kórnum. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, afhenti þeim hvoru um sig 200 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.

Birgir Leifur og Fanndís voru valin úr hópi 42 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum.

Birgir Leifur var ekki eini kylfingurinn sem hlaut viðurkenningu á íþróttahátíðinni því Hulda Clara Gestsdóttir og Sigurður Arnar Garðarsson hlutu viðurkenningar fyrir árangur sinn í ár. Þá var karlalið GKG kjörinn flokkur ársins 2017 en liðið varð Íslandsmeistari klúbbaliða á árinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is