Birgir Leifur í holli með þreföldum sigurvegara á Evrópumótaröðinni

Birgir Leifur Hafþórsson er meðal keppenda á Ástralska PGA meistaramótinu sem fer fram dagana 30. nóvember - 3. desember í Queensland í Ástralíu. Búið er að raða kylfingum niður í holl og er Birgir Leifur í skemmtilegu holli.

Richard Green og David Smail verða með sjöfalda Íslandsmeistaranum í holli fyrstu tvo dagana. Þeir fara út klukkan 7:10 að staðartíma á fimmtudaginn og hefja leik á fyrsta teig.

Green er mikill reynslubolti á Evrópumótaröðinni en hann hefur þrisvar sinnum sigrað á Evrópumótaröðinni á löngum ferli. Hann sigraði síðast á Opna portúgalska mótinu árið 2010. Þá deildi hann vallarmetinu á Carnoustie vellinum í langan tíma eftir að hafa leikið völlinn á 64 höggum á lokahringnum á Opna mótinu árið 2007.

Smail hefur á sínum ferli sigrað á nokkrum minni mótaröðum en hann var á tímabili kominn upp í 70. sæti heimslistans. Hann hefur þó ekki leikið vel á þessu ári og á enn eftir að komast í gegnum niðurskurðinn í 8 tilraunum.

Birgir Leifur lék síðast á Evrópumótaröðinni árið 2011 en alls hefur hann leikið á 60 mótum á Evrópumótaröðinni. Hann var með keppnisrétt á Evrópumótaröðinni árin 2007-2009 og á þeim tíma lék hann á samtals 43 mótum á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

Hér er hægt að sjá allar helstu upplýsingar um mótið í Ástralíu.


Richard Green.

Sjá einnig:

Green „grísapungur“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is