Birgir Leifur í holli með reynslubolta

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, hefur leik á fimmtudaginn á Portugal Masters mótinu sem fer fram á Dom Pedro Victoria golfvellinum í Portúgal. Mótið er hluti af sterkustu mótaröð Evrópu, Evrópumótaröðinni.

Birgir mun leika með þeim Felipe Aguilar og Gavin Green fyrstu tvo dagana. Green hefur leikið vel undanfarna mánuði en hann er á sínu fyrsta ári á Evrópumótaröð karla og situr í 77. sæti stigalistans eftir 24 mót. Hans besti árangur á tímabilinu kom í lok ágúst þegar hann endaði í 3. sæti á D+D Czech Real Masters.

Aguilar er hins vegar 44 ára gamall kylfingur frá Chile sem hefur unnið tvisvar á Evrópumótaröðinni. Hann sigraði á Indonesia Open árið 2008 og Championship at Laguna National árið 2014. Aguilar situr í dag í 641. sæti heimslistans en hann var hæst í 99. sæti.

Birgir, Aguilar og Green fara út klukkan 9:10 að staðartíma á fimmtudaginn á fyrsta teig. Hér verður hægt að fylgjast með skori þeirra í beinni.


Felipe Aguilar.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is