Birgir Leifur í frábærum málum fyrir lokahringinn

Þriðji hringur Cordon Golf Open mótsins fór fram í dag, en mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni. Eins og greint var frá í gær var Birgir Leifur með fjögurra högga forystu fyrir daginn og hélt hann uppteknum hætti í dag. Birgir lék þriðja hringinn á 64 höggum, eða 6 höggum undir pari. Hann er því með 7 högga forystu á næstu menn fyrir lokadaginn.

Birgir Leifur hóf leik á fyrstu holu í dag og var ekki lengi að fá fyrsta fuglinn, en hann kom á annarri holunni. Tveir skollar fylgdu í kjölfarið og var hann því á einu höggi yfir pari eftir fjórar holur. Þá kom frábær kafli hjá Birgi, en á næstu átta holum var hann á sjö höggum undir pari, þar sem hann fékk einn örn og fimm fugla. Síðustu sex holurnar lék hann á parinu og 64 högg því raunin.

Birgir Leifur er samtals á 18 höggum undir pari og er með 7 högga forystu fyrir lokahringinn.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.