Birgir Leifur hefur tímabilið á Áskorendamótaröðinni í Keníu

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, er meðal keppenda á fyrsta móti tímabilsins á Áskorendamótaröðinni sem fram fer í Keníu dagana 22.-25. mars. Þetta staðfesti hann í samtali við blaðamann Kylfings á dögunum.

Birgir Leifur, sem sigraði í fyrsta sinn á ferlinum á mótaröðinni í fyrra, er með fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni og ætlar sér að vera með á helstu mótum tímabilsins í ár en hann fær einnig keppnisrétt á nokkrum mótum á Evrópumótaröðinni.

Mótið í Keníu á sér langa sögu á Áskorendamótaröðinni en það fór fyrst fram árið 1991. Síðan þá hafa kylfingar á borð við Trevor Immelman og Edoardo Molinari meðal annars staðið uppi sem sigurvegarar.

Birgir Leifur verður mögulega ekki eini íslenski kylfingurinn í mótinu en Íslandsmeistarinn Axel Bóasson, GK, bíður nú eftir staðfestingu á sæti í mótinu. Axel tryggði sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni í ár með því að sigra á Nordic Golf mótaröðinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is