Birgir Leifur flýgur upp stigalista Áskorendamótaraðarinnar

Eftir glæsilegan árangur í KPMG bikarnum um síðustu helgi er Íslandsmeistarinn Birgir Leifur Hafþórsson kominn upp í 61. sæti stigalistans á næst sterkustu mótaröð Evrópu, Áskorendamótaröðinnni í golfi.

Birgir Leifur hefur nú leikið í þremur mótum á tímabilinu en hans besti árangur kom í KPMG bikarnum. Þar endaði hann í fjórða sæti eftir að hafa leikið hringina fjóra á 16 höggum undir pari. Spilamennska Birgis í mótinu var gríðarlega stöðug en hápunktur þess var þó líklega þegar hann fór holu í höggi á öðrum hringnum.

Til mikils er að vinna fyrir þá keppendur sem leika á Áskorendamótaröðinni. Í lok tímabilsins fá 15 efstu kylfingarnir fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðina í golfi. Þá fá þeir kylfingar sem enda í sætum 16-45 boð í nokkur mót á Evrópumótaröðinni.

Næsta mót á Áskorendamótaröðinni hefst á fimmtudaginn. Birgir Leifur er skráður til leiks og mun Kylfingur fylgjast vel með gangi mála í því móti.

Hér er hægt að sjá stigalista Áskorendamótaraðarinnar í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is