Birgir Leifur: Breytingar í púttum skiluðu sér

- fékk ráð frá fyrrverandi landsliðsþjálfara Íslands í púttunum

„Ég hef aldrei púttað jafn vel og verið eins beittur í stutta spilinu í einu móti. Þetta small eiginlega allt saman og ég sló líka frábærlega. En pútterinn var sjóðheitur,“ segir Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur sem sigraði á sínu fyrsta móti sem atvinnumaður í Frakkalandi um síðustu helgi á Áskorendamótaröð Evrópu. Heimaklúbbur Birgis, GKG, hélt Birgi hóf í íþróttamiðstöð klúbbsins í Leirdal í gær og kylfingur.is ræddi við Birgi þar eftir þennan magnaða árangur og spurði hann út í framhaldið.

Birgir segir að hann hafi breytt aðeins í púttunum í sumar undir leiðsögn Staffans Johannsson, fyrrverandi landsliðsþjálfara. „Hann kom með nokkra punkta sem ég hef verið að vinna í og þeir hafa verið að smella inn að undanförnu. Púttstrokan er orðin þéttari, ég var með lengri bakstroku og eins framstroku. Þessu breytti ég og fleiru sem hefur virkað vel. Ég hef alltaf haldið góðu sambandi við Staffann. Hann er frábær og með mikla reynslu.“

Formaður GKG, fulltrúi Forskots og forseti GSÍ héldu allir stutta tölu og óskuðu Birgi til hamingju með árangurinn. Þeim varð tíðrætt um aldurs Birgis en sögðust taka undir orð Birgis sjálfs að hann væri eins og gott rauðvín sem yrði betra með aldrinum.
„Aldurinn er afstæður. Mér líður mjög vel. Ég er í góðu líkamlegu formi og hef spýtt í þar á þessu ári. Ég hef alltaf sagt að við Norðurlandabúar springum út seinna. Ég get nefnt dæmi eins og Svíann Henrik Stensson sem vann risatitil í fyrra og hefur náð frábærum árangri á síðustu árum. Við erum jafn gamlir. Ég get líka nefnt Phil Mickelson sem er enn að stríða þessum strákum.“

Þessi sigur hefur mikla þýðingu fyrir Birgi Leif en hann getur núna sótt öll mót á Áskorendamótaröðinni en þau eru sjö sem eru eftir. Hann fékk líka strax boð á mót á Evrópumótaröðinni, m.a. núna á næstunni en sagðist ætla að einbeita sér að Áskorendamótaröðinni og freista þess að tryggja stöðu sína betur. „Þetta er allt önnur staða og nú get ég skipulagt mig nokkuð vel næstu tvö árin. Betri árangur í næstu mótum verður bara plús þannig að staðan er góð,“ sagði Birgir meðal annars í viðtalinu sem hægt er að sjá í fullri lengd hér á síðunni en kylfingur.is sýndi það í beinni útsendingu á Facebook síðu sinni í hófinu.
Eins er myndskeið frá ræðu Birgis í hófinu en þar segir hann skemmtilega frá ýmsu sem tengist mótinu. Hann var t.d. ekki öruggur um að hann gæti leikið í því þar sem hann var veikur rétt fyrir mótið og gat ekki undirbúið sig eins og hann ætlaði sér. „Ég hafði þó alltaf góða tilfinningu fyrir mótinu. Þetta var völlur sem hentaði mér vel og svo small þetta allt saman,“ sagði Birgir sem notaði tækifærið í ræðu sinni í hófinu til að þakka mörgum fyrir hjálp, sérfræðingum, styrktaraðilum og ekki síst fjölskyldu sinni og sérstaklega Elísabetu konu sinni se hann sagði að hefði alltaf stappað í hann stálinu.

Hér að neðan er viðal kylfings.is við Birgir og svo ræða hans og annarra í hófinu.