Birgir Leifur: Allt miklu stærra á Evrópumótaröðinni

Birgir Leifur Hafþórsson mætti aftur til leiks á sterkustu mótaröð Evrópu um helgina þegar hann keppti á Ástralska PGA meistaramótinu á Evrópumótaröðinni í golfi. Margir frábærir kylfingar voru meðal keppenda og komst Birgir Leifur í gegnum niðurskurðinn sem er flott byrjun hjá margfalda Íslandsmeistaranum.

„Það var rosalega gaman að vera aftur kominn á Evrópumótaröðina,“ sagði Birgir í samtali við Kylfing. „Ég var sáttur við allt í spilamennskunni fyrir utan púttin, en ég var í erfiðleikum með bermudagrasið og náði aldrei takti þar með of mörg þrípútt.

Ég spilaði mjög ákveðið um helgina og fannst mér það mjög gaman þó að það hafi skipst á skin og skúrir. Ég spilaði allavega 4 daga sem ekki allir fengu tækifæri til að gera, þannig að ég er að gera eitthvað rétt.“

Birgir Leifur hefur leikið á Áskorendamótaröðinni undanfarin ár en fyrir góðan árangur á síðasta tímabili mun hann fá nokkur mót á Evrópumótaröðinni á þessu tímabili. Finnst honum mikill munur á mótaröðunum?

„Munurinn er mestur í umgjörð og völlum. Á Evrópumótaröðinni er allt miklu miklu stærra og meira. Vellirnir oftast settir upp erfiðari þó svo að það sé búið að lagast mikið á Áskorendamótaröðinni. Annars er þetta alls staðar það sama: Hvít kúla, grænn völlur, eins hola og sami slagurinn við sjálfan sig, völlinn og andstæðingana.“

Birgir Leifur verður aftur í eldlínunni um næstu helgi þegar mótaröðin færir sig yfir til Suður-Afríku. Hann mun svo fá næstu mót á mótaröðinni eftir áramót en auk þess leikur hann á Áskorendamótaröðinni.

„Ég er á leið til Johannesburg í Suður-Afriku í næsta mót á Evrópumótaröðinni. Svo kemur kærkomið frí með fjölskyldunni þar sem að næsta ár verður þétt setið og mörg mót sem standa til boða.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is