Birgir Leifur áfram eftir fugl á lokaholunni

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, var rétt í þessu að ljúka við annan hring á ástralska PGA meistaramótinu. Birgir lék hringinn í dag á 69 höggum og er þegar þetta er skrifað jafn í 57. sæti og því öruggur með að komast í gegnum niðurskurðinn.

Vitað var fyrir daginn að Birgir þyfti á góðum hring að halda eftir að hafa leikið á tveimur höggum yfir pari í gær. Birgir átti út mjög seint og þegar hann hóf leik miðaðist niðurskurðurinn við þá kylfinga sem voru á parinu eða betra. Eftir því sem líða tók á hringinn varð ljóst að Birgir þyfti að komast á eitt högg undir par til þess að komast áfram.

Birgir hóf leik í dag á 10. braut og og byrjaði hringinn á að fá fimm pör í röð. Á 15. holunni kom fyrsti fugl dagsins og fylgdi hann því eftir með þremur pörum. Hann lék því fyrri níu holurnar á einu höggi undir pari.

Á síðari níu holunum fékk Birgir par á fyrstu tvær holurnar en fékk svo fugl á þriðju holunni. Því var ljóst að einn fugl til viðbótar dugði til þess að komast áfram. Fuglinn lét aðeins bíða eftir sér og kom hann ekki fyrr en á lokaholu dagsins. 

Hringinn lék hann því á 69 höggum, eða þremur höggum undir pari. Hann er sem stendur jafn í 57. sæti á samtals einu höggi undir pari, en 70 efstu kylfingarnir komast áfram.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.