Birgir Leifur á 74 höggum í Ástralíu

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, lék á 74 höggum á fyrsta hring ástralska PGA meistaramótsins sem hófst í nótt. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og er þetta fyrsta mótið sem Birgir Leifur tekur þátt í á nýju tímabili, en hann er með takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Birgir náði sér ekki alveg á strik í dag. Hann hóf leik á fyrstu holu og var komin eitt högg undir par eftir fugl á annari holu dagsins. Einn skolli á fyrri níu holunum gerði það að verkum að hann lék þær á parinu.

Á síðari níu holunum komu engir fuglar, en það komu aftur á móti tveir skollar. Hann kom því í hús á tveimur höggum yfir pari á síðari níu holunum og lék hringinn á 74, eða tveimur höggum yfir pari.

Staðan er mjög jöfn í mótinu. Eftir hringinn er Birgir jafn í 112. sæti og eru aðeins fjögur högg í 20. sætið. Með góðum hring á morgun getur Birgir vel komist gegnum niðurskurðinn og er því ekki öll nótt úti enn.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.