Birgir Leifur á 72 höggum í Frakklandi

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, hóf í dag leik á Hauts de France mótinu, en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Hringinn lék hann á 72 höggum og er hann eftir daginn jafn í 51. sæti.

Birgir hóf leik á 10. teig og byrjaði með látum, en hann var kominn tvö högg undir par eftir þrjár holur. Hann gaf þó eftir þegar á leið hringinn og var kominn tvö högg yfir par þegar hann hafði lokið við 12 holur. Birgir náði þó að klóra í bakkann með því að fá örn á sjöundu holu, en fékk því miður skolla á næstu holu. Hann kom því í hús á 72 höggum, eða einu höggi yfir pari og er jafn í 51. sæti eins og áður sagði.

Efstu menn eru á fjórum höggum undir pari, en fjórir kylfingar eru jafnir í efsta sæti. Það er því stutt í efstu menn fyrir Birgi Leif og með góðum hring á morgun getur hann hæglega komið sér í toppbaráttuna.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.