Evrópumótaröðin: Fín byrjun hjá Birgi Leifi í Suður-Afríku

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson lék fyrsta hringinn á Joburg Open mótinu á einu höggi undir pari og er jafn í 75. sæti þegar fréttin er skrifuð. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi, sterkustu mótaröð Evrópu. Leikið er á tveimur völlum í Suður-Afríku þeim Firethorn og Bushwillow.

Birgir Leifur hóf leik á 1. teig í morgun á Bushwillow vellinum og fékk par á allar holur á fyrri níu. Á seinni níu fékk hann svo þrjá fugla og einn tvöfaldan skolla. Niðurstaðan því 70 högg eða eitt högg undir pari.

Alls leika 240 kylfingar í mótinu í Suður-Afríku sem er eitt það fjölmennasta á ári hverju. Birgir Leifur er í 75. sæti en það getur breyst töluvert þar sem margir kylfingar eru enn úti á velli.

Heimamaðurinn Keenan Davidse fór best af stað í morgun og er í forystu á 8 höggum undir pari. Hann fékk alls 9 fugla og einn skolla á hringnum en hann lék líkt og Birgir á Bushwillow vellinum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is