Birgir Leifur +2 á fyrsta hring í lokaúrtökumótinu

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, hóf í dag leik á lokaúrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina sem fer fram á Spáni. Leikið er á tveimur völlum á Lumine golfsvæðinu, þeim Hills og Lakes. Birgir Leifur lék í dag á þeim síðarnefnda.

Birgir fékk alls fjóra skolla á fyrsta hring mótsins og tvo fugla sem litu dagsins ljós á 8. og 16. holu. Hann er jafn í 115. sæti þegar fréttin er skrifuð á tveimur höggum yfir pari en alls taka 156 kylfingar þátt í mótinu.


Skorkort Birgis.

Ítalinn Andrea Pavan, sem lék með Birgi í holli í dag, er efstur á 6 höggum undir pari.

Fjölmargir reyndir kylfingar eru meðal keppenda í lokaúrtökumótinu að þessu sinni. Alls hafa 30 keppendur sigrað á Evrópumótaröðinni, enginn þó oftar en Spánverjinn Gonzalo Fernandez-Castano sem sigraði 7 sinnum á mótaröðinni á árunum 2005-2013. 

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is