Birgir Leifur: „Mikilvægasti dagur ferilsins“

Birgir Leifur Hafþórsson er eins og fram hefur komið með sjö högga forystu þegar einum hring er ólokið á Cordon Golf Open mótinu, en mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni. Hringir upp á 63, 65 og 64 högg þýða að Birgir Leifur er samtals á 18 höggum undir pari og eru næstu menn á 11 höggum undir pari.

Eftir hringinn var rætt við Birgi Leif og alveg ljóst að sigur væri mikil vítamínsprauta fyrir ferilinn.

„Hvað get ég sagt, þetta var mjög, mjög góður dagur. Örugglega besta golf sem ég hef spilað á ferlinum, sem er ánægjulegt miðað við að ég hef verið í þessu þetta lengi. Vonandi að það haldi áfram á morgun.“

Birgir fékk tvo skolla í röð á holum þrjú og fjögur, en svaraði því með góðum fuglum á fimmtu og sjöttu braut. Myndband af fuglinum á sjöttu er hér að neðan.

Hann fylgdi þessum tveimur fuglum eftir með glæsilegum erni á sjöundu braut.

„Morgundagurinn er mikilvægasti dagur ferilsins. Ég hef aldrei unnið, þannig það væri gaman. Ég hef unnið mót heima, en aldrei hérna úti, þannig það væri mjög mikilvægt.“

Birgir endaði daginn á að fá fugl á 18. og kom því í hús á 64 höggum, sem var jafnframt besti hringur dagsins. Púttið á 18. var ekki af verri endanum, en það má sjá hér að neðan.

„Pútterinn hjá mér hefur verið mjög góður og ég er að slá 2-járnið vel. Er að hitta margar brautir og setja niður mörg pútt. Það er samt stutt á milli og um leið og maður hættir að vera ákveðinn er maður fljótur að tapa höggum. Þessi völlur er þannig. Þú getur verið að spila svaka vel, en svo getur þú auðveldlega lent í miklum vandræðum. Það er alltaf erfitt, andlega, að vera með svona mikið forskot. Þess vegna þarf ég að vera mjög einbeittur á morgun og passa mig að halda mér í núinu. Maður hugsar alltaf aðeins um framtíðina, en á morgun verð ég að passa mig vel.“

Þó svo að Birgir hafi leikið frekar vandræðalaust golf, lenti hann í smá vandræðum á 14. holunni í dag. Hann náði þó að bjarga sér vel og tryggja að ekki meira en eitt högg tapaðist. Mynband af því er hér að neðan.