Besti árangur Ólafíu á tímabilinu | Fékk örn á 18. holu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, náði í dag frábærum árangri á LPGA mótaröðinni þegar hún lauk leik á Indy Women in Tech Championship mótinu á 13 höggum undir pari. Þegar fréttin er skrifuð er Ólafía jöfn í þriðja sæti og ljóst að hún mun bæta sinn besta árangur á mótaröðinni á þessu tímabili sem var 13. sæti á Opna skoska mótinu.

Ólafía Þórunn lék jafnt og stöðugt golf á lokahringnum en hún var á tveimur höggum undir pari fyrir síðustu holuna. Hún gerði sér lítið fyrir og vippaði í fyrir erni á 18. holunni og kláraði hringinn á 4 höggum undir pari og á 13 höggum undir pari í heildina.

Árangur Ólafíu í mótinu gerir mjög mikið fyrir hana varðandi framhaldið en hún nánast tryggði þátttökurétt sinn á LPGA mótaröðinni á næsta ári með þessu móti. Áætluð staða hennar á stigalistanum er nú 73. sæti eftir mótið en hún var í 101. sæti fyrir helgina.

Næsta mót á dagskrá hjá Ólafíu er síðasta risamót ársins, Evian Championship, sem fer fram um næstu helgi í Frakklandi. Spennandi tímar framundan hjá okkar fremsta atvinnukylfingi.

Lexi Thompson er með fjögurra högga forystu fyrir lokasprettinn á Indy Women in Tech Championship mótinu. Hún er samtals á 19 höggum undir pari, fjórum höggum á undan Lydiu Ko sem er önnur.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is