Berglind og Guðrún Brá reyna við Evrópumótaröðina

Berglind Björnsdóttir, GR, og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, eru skráðar til leiks á fyrsta stigs úrtökumóti fyrir LET Evrópumótaröðina í golfi sem fer fram dagana 16.-19. nóvember. Leikið er í Marokkó á Palm golfvellinum en alls eru 49 kylfingar skráðir til leiks.

Berglind og Guðrún eru báðar að reyna við LET mótaröðina í fyrsta sinn á ferlinum en þær hafa gert góða hluti á Eimskipsmótaröðinni undanfarin ár. Berglind fagnaði til að mynda stigameistaratitli í sumar og þá varð Guðrún Brá Íslandsmeistari í holukeppni.

Mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu en Valdís Þóra Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafa báðar verið með keppnisrétt á mótaröðinni undanfarin tvö ár. 

Alls eru tvö stig á úrtökumótunum fyrir Evrópumótaröðina. Seinna stigið fer fram dagana 16.-20. desember.

Hér er hægt að sjá allar helstu upplýsingar um úrtökumótið.


Berglind Björnsdóttir.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is