Axel og Haraldur með á lokamótinu

Lokamót tímabilsins á Nordic Golf mótaröðinni er framundan. Mótið fer fram dagana 12.-14. október og fer fram í Åhus sem er rétt fyrir utan Kristianstad í Svíþjóð. Flestir af bestu kylfingum mótaraðarinnar eru skráðir til leiks en að mótinu loknu kemur í ljós hvaða 5 kylfingar fá keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni að ári liðnu.

Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús eru skráðir til leiks í mótið.

Axel er í efsta sæti stigalistans fyrir lokamótið og er í raun kominn með 9 fingur á stigameistaratitilinn. Haraldur Franklín er dottinn niður í 7. sæti stigalistans og þarf að treysta á frábært mót til þess að enda í einu af 5 efstu sætunum.

Lokamótið ber heitið SGT Tourfinal. Leiknar verða 54 holur og verður niðurskurður eftir tvo hringi. Verðlaunafé mótsins er með því hæsta á mótaröðinni en sigurvegari mótsins fær 9.484 evrur í sinn hlut eða tæpar 1,2 milljónir íslenskar krónur.

Hér er hægt að sjá allar helstu upplýsingar um mótið.


Haraldur Franklín verður í eldlínunni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is